Þrátt fyrir tap Íslands gegn Litháen í undankeppni fyrir Evrópumótið sem haldið verður í janúar á næsta ári fyrr í dag þá er íslenska liðið komið í lokakeppnina sem leikin verður í Slóvakíu og Ungverjalandi.

Portúgal hafði betur gegn Ísrael í hinum leiknum í næst síðustu umferð undankeppninnar. Þar af leiðandi er Portúgal á toppi riðilsins með átta stig, Ísland þar á eftir með sex stig, Litáen hefur fjögur stig og Ísrael tvö.

Þar sem Ísland hefur betri stöðu í innbyrðisviðuregnum sínum gegn Litáen geta Litáar ekki skotist upp fyrir íslenska liðið í lokaumferðinni þar sem Ísland og Ísrael mætast og Portúgal og Litáen eigast við.

Tvö efstu liðin í riðlinum fara beint í lokakeppnina. Þannig er það ljóst að Ísland er á leið í lokakeppni Evrópumóts í 12. skiptið í röð en liðið hefur leikið þar allar götur frá því á mótinu árið 2000.