ÍSÍ hefur ekki ákveðið hvort krafa verði gerð um bólusetningu við Covid-19 hjá fulltrúum Íslands á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið.

Alþjóðaólympíunefndin mun ekki krefjast þess að þátttakendur verði bólusettir en óbólusettir þurfa að fara í þriggja vikna sóttkví við komuna til Kína.

Andri segir að von sé á handbók frá Ólympíunefndinni á næstu dögum þar sem þetta ferli verði nánar útskýrt.

Út frá því verði ákvörðun tekin um hvort krafist verður bólusetningar eða einstaklingum standi til boða að taka út þriggja vikna sóttkví við komuna til Peking.

„Það er ekki búið að taka ákvörðunina. Það er auðvitað mjög erfitt að ætla að fara í þriggja vikna sóttkví rétt fyrir mót, þannig að það gefur augaleið að það er auðveldara að þiggja bólusetningu til að auðvelda undirbúninginn,“ segir Andri, spurður hvort ÍSÍ sé búið að taka ákvörðun.

Fyrr í þessari viku ákvað kanadíska Ólympíunefndin að gera kröfu um bólusetningu hjá öllum Ólympíuförum frá Kanada en bandaríska Ólympíunefndin tók sömu ákvörðun í síðasta mánuði.

Þá staðfestir Andri að allir fulltrúar Íslands á Ólympíuleikunum í Tókýó fyrr á þessu ári hafi verið bólusettir.