Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði eitt marka Norrköping og lagði upp annað þegar liðið lagði IFK Gautaborg að velli með þremur mörkum gegn einu í sjöttu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar á mánudaginn var.

Sú frammistaða skilaði honum bæði í lið umferðarinnar og þá var Ísak Bergmann enn fremur valinn besti leikmaður umferðarinnar. Ísak Bergmann hefur komið við sögu í fimm af fyrstu sex leikjum deildarinnar en hann kom inná sem varamaður í fyrstu tveimur leikjunum sem hann spilaði og hefur svo verið í byrjunarliðinu í síðustu þremur leikjum liðsins.

Í þessum leikjum hefur þessi 17 ára gamli miðvallarleikmaður skorað eitt mark og lagt upp önnur þrjú fyrir samherja sína. Norrköping trónir á toppi deildarinnar með 16 stig og hefur fimm stiga forskot á Sirius sem er í öðru sæti.

Næsti leikur Norrköping er á móti Arnóri Ingva Traustasyni og liðsfélögum hans hjá Malmö sitja í sjöunda sæti deildarinnar með níu stig fyrir þann leik.