PSG vann í dag dómsmál gegn UEFA eftir að evrópska knattspyrnusambandið vildi hefja rannsókn á ný hvort að PSG hefði brotið reglur sambandsins um fjárhagslega háttvísi (e. financial fair play).

Alþjóðlegur íþróttadómstóll í Lausanne í Sviss dæmdi PSG í hag að UEFA væri ekki heimilt að rannsaka málið á ný eftir að hafa lokið rannsókninni á sínum tíma.

Reglurnar um fjárhagslega háttvísi krefjast þess að félög skili ekki ársreikningum í mínus til að tryggja öryggi félaga ásamt því að koma í veg fyrir að fjársterkir eigendur geti þurrkað út skuldir á eigin kostnað.

Evrópska knattspyrnusambandið vildi rannsaka á ný hvort að PSG hefði brotið reglur sambandsins tímabilið 2016-17 en dómstóllinn meinaði UEFA að hefja rannsókn á ný.

Það þýðir þó ekki að PSG sé öruggt enda er UEFA einnig að rannsaka hvort að PSG hafi brotið reglurnar ári síðar þegar félagið keypti Kylian Mbappé og Neymar.

UEFA hefur verið að rannsaka undanfarin ár hvort að PSG og Manchester City, lið í eigu auðkýfinga frá Persaflóanum hafi falsað styrktarsamninga til að jafna út ársreikningana.