Saveh Shemshaki varð á mánudaginn fyrsti þátttakandi Vetrarólympíuleikanna til að falla á lyfjaprófi eftir að sterar fundust í sýni hans við hefðbundið eftirlit.

Shemshaki sem keppir í alpagreinum er því kominn í bann frá keppni en lyfjaeftirlitið segir að hann geti áfrýjað niðurstöðunni til Alþjóðaíþróttadómstólsins.

Hann er fyrsti einstaklingurinn sem er úrskurðaður í bann vegna falls á lyfjaprófi en erlendir fjölmiðlar hafa fullyrt undanfarna daga að hin fimmtán ára gamla Kamila Valieva hafi einnig fallið á lyfjaprófi.

Valieva var hluti af sveit rússnesku Ólympíunefndarinnar sem vann til gullverðlauna í sinni grein en búið er að fresta verðlaunaafhendingunni og beinast spjótin að Valieva.

Íranski skíðakappinn er því fyrsti þátttakandinn sem er opinberlega staðfesta að hafi fallið á lyfjaprófi á Ólympíuleikunum.

Shemshaki var einn af tveimur fulltrúum Írans á Vetrarólympíuleikunum þetta árið.

Hann var mættur til leiks á Vetrarólympíuleikana í þriðja sinn á ferlinum en besti árangur hans til þessa var 31. sæti í svigi á Ólympíuleikunum í Sochi.