Breiðhyltingar unnu fyrsta sigur tímabilsins í Dominos-deild karla í kvöld þegar þeir fóru í Hafnarfjörð og kafsigldu Hauka strax á fyrstu mínútum leiksins í 84-66 sigri.

Haukar unnu sigur á Val í fyrsta leik tímabilsins á meðan ÍR þurfti að sætta sig við tap gegn Stjörnunni eftir að hafa byrjað leikinn af sama krafti og í kvöld.

ÍR-ingar mættu í leikinn af krafti og náðu strax tíu stiga forskoti 12-2 á fyrstu mínútum leiksins. Þeir héldu áfram að bæta við það og virtust Haukar ekki vera tilbúnir að mæta hörkunni hjá ÍR í kvöld.

Þrátt fyrir allar tilraunir Hauka til að gera þetta að leik á ný komust þeir ekki nálægt því að ógna forskoti ÍR-inga sem litu afar vel út í kvöld.

ÍR fékk framlag frá fjölmörgum leikmönnum í kvöld, Gerald Robinson var með tvöfalda tvennu,  23 stig og 15 fráköst og þá skilaði Justin Martin 19  stigum og Hákon Örn Hjálmarsson 16 stigum.