Vorboða lífs og gleði, Víðavangshlaupi ÍR, sem í rúma öld hefur farið fram á sumardaginn fyrsta, verður frestað og mun fara fram fimmtudaginn 4. júní, ef aðstæður leyfa. ÍR-ingar eru ákaflega stoltir af langri og samfelldri sögu Víðavangshlaups ÍR. Þótt heiti hlaupsins kunni að vera fornt þá vita flestir að hlaupið er eitt fjölmennasta 5 km hlaup landsins og er það haldið í hjarta borgarinnar.

Til fjölmargra ára hefur hlaupið jafnframt verið íslandsmeistaramótið í 5 km götuhlaupi og hefur af þeim sökum dregið að fjölda keppnishlaupara sem vilja fagna sumarkomunni á viðeigandi hátt. Einnig er lögð áhersla á skemmtanagildið og að fjölskyldan hreyfi sig saman og er boðið upp á styttri vegalengd fyrir þá sem styttra eru á veg komnir eða vilja ganga í stað þessa að hlaupa.

Í 105 ára sögu hlaupsins hefur það aldrei fallið niður en verður nú í þriðja sinn fært til eða haldið á öðrum degi en sumardaginn fyrsta. Í tilefni af 25 ára afmæli hlaupsins árið 1940 var hlaupið liður í umfangsmiklum hátíðahöldum sem ÍR efndi til á uppstigningardag. Árið 1949 var hlaupinu frestað vegna óhagstæðs veðurs og veikindafaraldurs í Reykjavík. Hlaupið er því í annað sinn fært til vegna veikindafaraldurs.

Hátíð er til heilla best, voru einkunnarorðin sem forráðamenn ÍR völdu Víðavangshlaupi ÍR í upphafi vegna þess hlaupið var haldið á tvöföldum helgidegi þar sem sumardaginn fyrsta bar upp á skírdegi árið 1916. ÍR-ingar munu sem endranær kappkosta við að Víðavangshlaupið fari fram með þeirri reisn sem því og verki frumkvöðlana hæfir en í þetta sinn á björtu júní sumarkvöldi.