Breiðhyltingar unnu þriðja leik sinn í röð í Dominos-deild karla og urðu um leið fyrsta liðið til að leggja KR að velli í Hertz-hellinum í kvöld.

KR var búið að vinna fyrstu fjóra leikina en í kvöld voru það ÍR-ingar sem fögnuðu 78-77 sigri og náðu fram hefndum eftir tap í oddaleik gegn KR í vor.

Með því tókst Keflavík að hirða toppsætið eftir tíu stiga sigur 92-82 á Val í Keflavík þar sem Khalil Ullah Ahmad fór mikinn og skilaði 34 stigum.

Keflvíkingar byrja vel undir stjórn Hjalta Þórs Vilhjálmssonar og hafa unnið fyrstu fimm leikina í deildarkeppninni.

Í Þorlákshöfn unnu heimamenn í Þór annan sigur tímabilsins þegar Haukar komu í heimsókn. Lokatölur 89-80 fyrir Þór.

Þórsarar voru sex stigum undir í hálfleik en tóku leikinn í eigin hendur með öflugum varnarleik í þriðja leikhluta.

Þá vann Tindastóll tólf stiga sigur 89-77 í nágrannaslagnum gegn Þór Akureyri í Síkinu í kvöld.

Nýliðarnir frá Akureyri eru því enn án stiga eftir fimm umferðir en Stólarnir eru um miðja deild með sex stig.