Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur fékk tilkynningu um mögulegt brot ÍR vegna ákvörðunar félagsins um að leggja niður meistaraflokk kvenna í handknattleik. Ákvörðunin vakti velunnara meistaraflokksins af værum blundi og var því hætt við að hætta og mun Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson stýra kvennaliði ÍR í handbolta.

Skrifstofan tók erindið fyrir og benti Breiðhyltingum á í bréfi sínu 17. apríl að mögulega væri ÍR að brjóta samninga við borgina og að ákvörðunin gæti haft fjárhagslegar afleiðingar. Borgin greiðir ÍR 60 milljónir króna á þessu ári.

Ingigerður Guðmundsdóttir, formaður ÍR, segir í bréfi sínu til borgarinnar að aðalstjórnin hafi ekki samþykkt ákvörðunina um að hætta með kvennaliðið. Hún bendir á að málið hafi ekki komið inn á borð aðalstjórnar félagsins því ákvörðunin hafi verið afturkölluð. Ingigerður segir enn fremur að fjármagn sé af skornum skammti og lítið fjárframlag komi frá opinberum aðilum til að halda úti starfi í deildum félagsins sem hefur aðallega áhrif á meistaraflokkana enda sé barnastarfið fjármagnað að mestu leyti með æfingagjöldum.

Ingigerður segir að ÍR sé með jafnréttisstefnu en engir peningar séu til að leggja með þeirri stefnu. Skortur sé á sjálfboðaliðum og bendir hún á að aðalstjórn geti ekki skipað þeim hvert þeir beini sinni vinnu. ÍR sé eins og önnur félög og finni fyrir því að sjálfboðaliðum sé að fækka og færri hendur að afla fjármagns. Meistaraflokksráð kvenna hafi verið stofnað og mun það aðstoða sjálfboðaliðana sem hafi þegar tryggt grundvöll fyrir að meistaraflokkur kvenna verði áfram við lýði í Breiðholti.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði bókuðu athugasemdir um að skrifstofan gæfi kafloðin svör og hefði ekki svarað þeim spurningum sem beint var til hennar með skýrum hætti. Hvort ÍR hafi brotið mannréttindastefnu borgarinnar, brotið samninginn við borgina og hvort það hafi áhrif á samninga við borgina að félagið brjóti jafnréttisstefnu. Fulltrúarnir segja að í ljósi þess að svörin séu fordæmisgefandi og leiðbeinandi til íþróttafélaga óski þeir eftir skýrum svörum.

Meirihlutinn í borginni bókaði að skrifstofan hefði brugðist við með skýrum hætti og hætt við athæfið sem erindið varðaði í kjölfarið. Í fyrri bókun meirihlutans kom fram að það væri fullur skilningur á því að staða íþróttafélaganna geti verið snúin, en kæmu upp erfiðleikar mættu þeir ekki bitna á einu kyni umfram annað eða afmörkuðum hópi. Lögð er áhersla á samvinnu og ánægjulegt er að málið hafi hlotið farsæla niðurstöðu, segir í bókuninni.

Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, mun taka við meistaraflokksliði ÍR í kvennaflokki. ÍR tilkynnti að leggja ætti flokkinn niður vegna bágrar fjárstöðu en borgaryfirvöld voru ekki sátt við þá ákvörðun.