Það réðst í kvöld hvaða lið fóru áfram úr F - H riðlum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla en fyrr í dag komust Liverpool og Napoli áfram úr E-riðlinum.

Borussia Dortmund fer upp úr F-riðli keppninnar en Jadon Sancho og Julian Brandt skoruðu mörk liðsins í 2-1 sigri á móti Slavia Prag.

Inter Milan laut í lægra haldi 2-1 gegn vængbrotnu liði Barcelona þar sem Carles Perez og Ansu Fati skoruðu fyrir Katalónanna og Romelu Lukaku fyrir ítalska liðið sem fer í 32 liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Spennan var mikil í G-riðlinum en þrjú lið kepptust þar um að fylgja RB Leipzig í 16 liða úrslit Meistardeildarinnar. Útlitið var svart hjá Lyon eftir að liðið lenti 2-0 undir leik sínum við RB Leipzig.

Emil Forsberg og Timo Werner komu þýska liðinu í tveggja marka forystu en Houssem Aouar og Memphis Depay jöfnuðu metin fyrir Lyon og franska liðið fer þar af leiðandi áfram. Benfica tryggði sér sæti í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar með 3-0 sigri sínum gegn Zenit Pétursborg sem er úr leik.

Valencia sendi Ajax í Evrópudeildina

Í H-riðlinum börðust svo þrjú lið um sætin tvö sem í boði voru í 16 liðar úrslitum Meistaradeildarinnar þaðan. Chelsea hafnaði í öðru sæti riðilsins eftir að hafa lagt Lille að velli með tveimur mörkum gegn einu.

Tammy Abraham og Cesar Azpilicueta komu Chelsea tveimur mörkum yfir en Loic Remy, fyrrverandi leikmaður Chelsea, skoraði sárabótarmark fyrir Lille.

Valencia vann hins vegar riðilinn en liðið hafði betur 1-0 í viðureign sinni við Ajax sem fer í Evrópudeildina. Það var Rodrigo sem skoraði sigurmark spænska liðsins í leiknum.

Þar af leiðandi hafa 14 lið tryggt sér farseðilinn í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar en það eru PSG, Real Madrid, Bayern München, Tottenham Hotspur, Manchester City, Juventus, Barcelona, Borussia Dortmund, Liverpool, Napoli, RB Leipzig, Lyon, Valencia og Chelsea.

Það kemur svo í ljós annað kvöld hvaða tvö lið fylla síðustu sætin í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar þetta keppnistímabilið.