Það stefnir allt í að David Beckham þurfi að breyta um nafn á nýstofnaða félagi sínu, Inter Miami, nokkrum dögum fyrir fyrsta leik félagsins.

Beckham fer fyrir fjárfestingahóp sem stofnaði félagið fyrir tveimur árum síðan og tekur þátt í MLS-deildinni í Bandaríkjunum í fyrsta sinn á þessu ári.

Ákveðið var að skíra liðið Inter Miami sem vakti óánægju hjá ítalska félaginu Inter. Ítalska félagið fór með málið fyrir dómstóla á þeim grundvelli að Inter Milan ætti höfundarréttinn á nafninu Inter.

Einkaleyfastofa Bandaríkjanna hafnaði rökum Inter Miami fyrir dómstólum í gær sem er skref í rétta átt fyrir ítalska félagið og er líklegt að dómstólarnir dæmi Inter Milan í hag.

Fyrsti leikur Inter Miami fer fram þann 1. mars næstkomandi og gæti Beckham þurft að vera fljótur að hugsa til að finna nýtt nafn á liðið.