Ingvar Jónsson markvörður danska liðins Viborg hefur verið kallaður inn í leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Frakklandi og Andorra sitt hvoru megin við næstu helgi í undankeppni EM 2020.

Rúnar Alex Rúnarsson sem ver mark franska liðsins Dijon var valinn í verkefnið en Erik Hamrén sagði frá því á blaðamannafundinum þegar hann tilkynnti hópinn að Rúnar Alex og kærasta hans, Ásdís Björk Sigurðardóttir, ættu von á barni og tvísýnt væri með þátttöku hans.

Hamrén sagði á fundinum að ef barnið væri ekki komið í heiminum á sunnudaginn myndi Ingvar Jónsson taka sæti Rúnars Alex í hópnum.

Nú hefur KSÍ tilkynnt að Ingvar muni fylla skarð Rúnars Alex sem er ekki enn orðinn faðir en mun eignast frumburð sinn á næstu dögum.