Ingibjörg Sigurðardóttir spilaði vel fyrir lið sitt Vålerenga þegar liðið hafði betur, 2-0, á móti Røa í annarri umferð norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu kvenna um síðustu helgi. Ingibjörg lagði upp seinna mark Vålerenga auk þess að standa vaktina vel í vörn liðsins.

Frammistaða Ingibjargar sem gekk til liðs við Vålerenga frá sænska liðinu Djurgården fyrir þetta keppnistímabil skilaði henni sæti í hjarta varnarinnar í liði umferðarinnar á opinberri heimasíðu deildarinnar.

Ingibjörg fékk sjö í einkunn fyrir spilamennsku sína en tveir leikmenn fengu hærri einkunn en hún. Vålerenga hefur þrjú stig eftir tvo leiki í deildinni en næsti leikur liðsins er gegn Klepp á laugardaginn kemur.