Ingi Þór Steinþórsson hefur ákveðið að halda aftur í Vesturbæinn eftir níu ára veru í Stykkishólmi, en hann tekur við karlaliði félagsins í körfubolta. Ingi Þór er uppalinn KR-ingur, en hann var þjálfari liðsins þegar það varð Íslandsmeistari árið 2000 og aðstoðarmaður Benedikts Rúnars Guðmundssonar þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 2009. 

Hann flutti svo til Stykkishólms þar sem hann hefur þjálfað bæði karla- og kvennalið félagsins með góðum árangri. Nú níu árum siðar hefur hann ákveðið að halda aftur á heimahagana og taka við karlalðinu hjá uppeldisfélagi sínu af Finni Frey Stefánssyni. 

„Það er afar góð tilfinning sem fylgir því að skrifa undir þennan samning og hugsa til þess að vera kominn aftur heim. Mér finnst þetta rétti tímapunkturinn fyrir mig persónulega að taka við KR á nýjan leik. Við ætluðum reyndar að vera áfram í Stykkishólminum. Þegar Finnur Freyr ákvað að hætta með liðið hafði KR fljótlega samband við mig og ég var strax spenntur fyrir því að taka við liðinu," sagði Ingi Þór sem skrifaði undir fjögurra samning við KR í hádeginu í dag. 

Þekki vel þær kröfur sem KR-ingar gera

„Ég var ekki lengi að ákveða mig eftir að KR-ingar höfðu samband. Ég fann það strax að þetta var áskorun sem mig langaði mikið til þess að taka. Það er vissulega erfitt að yfirgefa Stykkishólminn eftir góða tíma þar. Það var hins vegar auðveld ákvörðun að taka slaginn með KR. Það var afar fagmannlega staðið að þessum málum hjá forráðamönnum Snæfells og KR og ég kann þeim aðilum sem stóðu að þessu bestu þakkir fyrir fumlaus og fagleg vinnubrögð," sagði Ingi Þór um aðdraganda þess að hann tók starfið að sér. 

„Ég þekki vel það kröfuharða umhverfi sem ég er að fara inn í og veit vel að það er pressa á mig að ná árangri með liðið. Ég lít svo að með síðasta titli, brotthvarfi Finns og komu minni verði ákveðin kaflaskil. Nú er það mitt að setja mitt handbragð á liðið, finna leiðir til þess að halda mönnum á tánum og halda liðinu á þeim stalli sem það hefur verið undanfarin ár. Ég hef fullt fram að færa og hef mikla trú á hæfileikum mínum sem körfuboltaþjálfari," sagði Ingi Þór um komandi tíma hjá KR. 

„Ég er farinn að huga að því að því hvernig við pússlum saman leikmannahópi á næstu leiktíð. Við erum farnir í það á fullu að semja við þá leikmenn sem eru til staðar hjá félaginu og svo sjáum við hvaða göt við þurfum að fylla. Það er afar jákvætt fyrir mig og KR-inga alla að Jón Arnór [Stefánsson] og Kristófer [Acox] hafi ákveðið að vera áfram og nú vindum við okkur í það að semja við aðra lykilleikemnn liðsins og kanna svo markaðinn," sagði Ingi Þór, en fram kom á fundinum í dað að viðræður stæðu yfir við Pavel Ermolinski og Björn Kristjánsson um framlengingu á samningi þeirra við félagið.