KR er búið að rifta samningi Inga Þórs Steinþórssonar hjá félaginu og mun Darri Freyr Atlason sem stýrði síðast kvennaliði Vals mun taka við liðinu af Inga.

Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Ingi tók við uppeldisfélagi sínu fyrir tæpum tveimur árum og stýrði liðinu til sigurs í úrslitakeppninni í Dominos-deild karla í fyrstu tilraun. Það var sjötti meistaratitill KR í röð.

Titilvörnin var stöðvuð í ár þegar KKÍ ákvað að aflýsa úrslitakeppninni og lokaumferðinni í deildinni en KR var í fjórða sæti þegar deildarkeppnin var stöðvuð.

Darri lét af störfum hjá Val á dögunum eftir að hafa stýrt liðinu til sigurs í deildarkeppninni síðustu tvö ár ásamt því að vinna fyrsta Íslands- og bikarmeistaratitilinn í sögu kvennaliðs Vals.

Darri þekkir vel til hjá KR eftir að hafa stýrt kvennaliði KR og þar áður yngri flokkum hjá KR.