Þrír stjórnarmeðlimir í Alþjóðaólympíunefndinni, IOC, lýstu yfir óánægju sinni með áætlanir Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, og forseta FIFA um að fjölga stórmótum í knattspyrnu á fundi stjórnarinnar fyrr í dag.

Thomas Bach, forseti Ólympíunefndarinnar, stöðvaði umræðuna fljótlega enda var Gianni Infantino, forseta FIFA og stjórnarmeðlimur í IOC, ekki viðstaddur til að svara um hæl. Infantino afboðaði sig á fundinn með stuttum fyrirvara.

Alþjóðaknattspyrnusambandið Infantino fremstan í flokki, hafa undanfarna mánuði lagt áherslu á að kynna hugmyndina um fjölgun stórmóta og er von á kosningu um málið síðar á þessu ári.

Infantino lét umdeild ummæli falla á dögunum þegar hann sagði að fjölgun stórmóta gæti leitt til þess að færri flóttamenn frá Afríku myndu látast við að smygla sér inn til Evrópu.

Mustapha Berraf, fulltrúi Alsír og forseti afrísku Ólympíunefndarinnar, var einn þeirra sem gagnrýndu Infantino og sagði að ef hugmyndir FIFA yrðu samþykktar myndi knattspyrna skyggja á allar aðrar íþróttagreinar.

Um leið myndi ákvörðunin draga úr kynjajafnrétti í íþróttum sem væri ekki í takt við gildi Ólympíuleikanna.