Forseti Fifa, Gianni Infantino átti fund með Donald Trump í vikunni þar sem Infantino og Trump ræddu HM 2026 og hvernig hægt væri að bæta kjör fremstu knattspyrnukvenna heims.

HM 2026 fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó og er það í annað sinn sem lokakeppni HM fer fram í Bandaríkjunum, 32 árum eftir að HM var haldið í Bandaríkjunum árið 1994.

„Eins og allir vita fer HM 2026 í Bandaríkjunum. Einhverjir leikir fara fram í Mexíkó og Kanada en stærsti hlutinn fer fram í Bandaríkjunum og þjóðin er afar spennt fyrir leikjunum,“ sagði Trump þegar hann var spurður út í fundinn.

Þá ræddu þeir hvernig hægt væri að bæta jafnrétti launa á milli kynja eftir að landsliðskonur Bandaríkjanna vöktu athygli á launamisrétti hjá kvenna- og karlalandsliðinu þrátt fyrir að kvennaliðið væri eitt það besta í heiminum.

„Við ræddum einnig kvennaknattspyrnu, hvernig hægt væri að bæta hana og koma á meira jafnrétti,“ sagði Trump.