Utan vallar eru skoðanapistlar
Knattspyrnufélög og Knattspyrnusamband Íslands eru þessa dagana að skila ársreikningum sínum. Fyrir áhugafólk um slíkt er gaman að renna í gegnum þá en það er hins vegar hvimleitt hversu oft reikningarnir gefa ekki rétta mynd af stöðu félaganna.
Félögin virðast hafa ansi frjálsar hendur þegar kemur að því skila frá sér ársreikningum og oft er ekkert samræmi á milli þess í hvaða lið tekjurnar eru færðar – það sama má segja um kostnað.
Fram, KR og HK hafa skilað sínum ársreikningum en á eins mismunandi hátt og hugsast getur. HK bregður á það ráð að setja saman barnaog unglingastarf sitt og meistaraflokka. Er þetta ein leiðin til þess að fela hvernig reksturinn raunverulega er. Ljóst er að bæta þarf regluverkið í kringum það hvernig ársreikningum er skilað. Að einhvers konar einn staðlaður ársreikningur sé gerður. Rekstur fótboltadeilda getur ekki verið svo mismunandi.
Félögin virðast hafa ansi frjálsar hendur
Knattspyrnusambandið er kannski ekki rétti aðilinn til að fara fram á slíkar breytingar enda þótt ársreikningur sambandsins sé nokkuð vel gerður þá eru tekjuliðir og kostnaðarliðir oft vel faldir. Enginn getur til dæmis komist að því hvað Evrópumót kvenna kostaði sambandið síðasta sumar.
Enginn leið er að sjá hversu mikla fjármuni sambandið fékk fyrir æfingaleik gegn Sádi-Arabíu. Hefur það tíðkast hjá sambandinu í mörg ár að greina ekki nákvæmlega frá því hvernig fjármunirnir koma inn og í hvað þeir fara.
Þetta gera knattspyrnufélögin líka en í þeim ársreikningum sem hafa komið inn á þessu ári eru liðir sem ómögulegt er að lesa í. Hvað hafa félögin að fela? KR til dæmis segir aðrar tekjur hjá sér vera 157 milljónir á síðasta ári. Það ætti ekki að vera ýkja flókið að segja frá því hvaðan þessar aðrar tekjur koma inn í kassann.
Félögin hafa svo engan áhuga á því að auglýsa birtingu ársreikninga. Skiljanlega, kannski eru þeir faldir í bakenda á heimasíðum félaganna. Þrír fyrstu ársreikningarnir sem blaðamaður fann þetta árið draga upp ansi dökka mynd af stöðu knattspyrnudeilda hér á landi. Taprekstur og stórar tölur í mínus.