Grétar Þór Eyþórsson, fráfarandi formaður handknattleiksráðs ÍBV er ómyrkur í máli í samtali við Handbolti.is í dag og segir framtíð handboltans í Vestmannaeyjum í hættu.

Aðalfundur félagsins fór fram í gær og kemur fram á handbolti.is að þær breytingar sem handknattleiksráð var mótfallið voru staðfestar. Með því er búið að skerða úthlutanir til handknattleiksdeildar sem fara þess í stað til knattspyrnudeildar ÍBV.

„Annarsvegar er að handboltinn leggist af í Vestmannaeyjum og hin sé að handboltinn kljúfi sig út úr ÍBV og stofni nýtt félag. Við gætum þá fengið aðra hverju þjóðhátið. Ég hugsa að það geti orðið farsælasta lausnin, það er að kljúfa félagið, og kveðja samstarf sem er harla lítils virði eins og sakir standa,“ segir Grétar Þór í samtali við síðuna.

Eins og fjallað var um á vef Fréttablaðsins í gær er allt í logum í Eyjum eftir að handknattleiksráð sakaði aðalstjórn félagsins um misbeitingu valds þegar kemur að tekjudreifingu.

Hann bætti við að leikmenn væru farnir að leitast eftir því að rifta samningnum og að óvíst væri með framtíðina á mörgum sviðum.