Enska knattspyrnusambandið gæti leitað til varalesara og tungumálasérfræðings til að finna út hvað José Mourinho sagði á hliðarlínunni eftir 3-2 sigur Manchester United á Newcastle United á laugardaginn.

Munnsöfnuður Mourinho er til rannsóknar hjá enska knattspyrnusambandinu. Verði hann fundinn sekur um að hafa blótað eða látið niðrandi ummæli falla gæti hann fengið eins leiks bann. Mourinho myndi þá missa af leik United og Chelsea, hans gamla félags, eftir landsleikjahléið.

Enginn virðist enn vita hvað Mourinho sagði nákvæmlega. Því hefur m.a. verið haldið fram að hann hafi blótað á portúgölsku.

United lenti 0-2 undir í leiknum gegn Newcastle en tryggði sér sigurinn með því að skora þrjú mörk á síðustu 20 mínútum leiksins.

Strákarnir hans Mourinho eru í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir átta umferðir.