Á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar sem haldinn var í síðustu viku var samþykkt samkomulag um byggingu knattspyrnuhúss á Ásvöllum. Þetta er langþráður áfangi fyrir Hauka en þeir telja aðstöðumuninn sem er á svæði sínu og því sem FH getur boðið uppi á fyrir iðkendur á Kaplakrika vera til trafala.

Næsta skref er svo að fá samþykki bæjarstjórnar til þess að framkvæmdir geti hafist á svæðinu. Halldór Jón Garðarson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, segist ánæðgur með vinnu meirihluta bæjarstjórnar í þessu máli.

Iðkendur og foreldrar þeirra eru hins vegar orðnir langeygir eftir því að fá bætta aðstöðu. Þá svíði það sárt að finna fyrir því að foreldrar iðkenda sem búi steinsnar frá Ásvöllum velji að fara með börnin sín í FH í stað Hauka vegna aðstöðunnar í Kaplakrika.

„Það er að okkar mati nauðsynlegt að bæta aðstöðuna á Ásvöllum og okkur finnst ósanngjarnt að staðan sé 3-0 FH í vil hvað knattspyrnuhús varðar. Við fundum það þegar Risinn og Dvergurinn risu á Kaplakrika að iðkendur fóru að færa sig frá okkur til FH. Þetta átti sérstaklega við hjá yngstu iðkendum félagisns sem eru viðkvæmastir fyrir því að æfa í alls konar veðri og vindum,“ segir Halldór Jón í samtali við Fréttablaðið.

Næsta skref að fá samþykki bæjarstjórnar

„Svo þegar Skessan varð klár varð þetta áþreifanlegra og þessa stundina keyrir Frístundabíll frá Vallahverfinu sem er í göngufæri við æfingasvæði okkar og Áslandinu með iðkendur sem eru að æfa hjá FH í stað þess að vera hjá því félagi sem er næst heimili þeirra. Þetta svíður auðvitað sárt og við viljum breyta þessu sem fyrst,“ segir Halldór Jón enn fremur.

„Að okkar mati erum við að bjóða okkar tæplega 600 iðkendum upp á sambærilega þjálfun og FH er að gera. Eini munurinn, sem er auðvitað mikill munur, er aðstaðan sem þeir hafa fram fyrir okkur. Desember og janúar hafa verið þungir fyrir iðkendur okkar og við finnum fyrir því að foreldrar eru orðnir langþreyttir á ástandinu. Nú eru hins vegar jákvæð teikn á lofti og við erum bjartsýn,“ segir hann um framhaldið.

„Næsta skref er að fá samþykki bæjarstjórnar fyrir framkvæmdunum en skipaður verður starfshópur sem stýrir því hvernig málinu sækir fram. Þetta er lóð sem bærinn á og okkur var úthlutað á sínum tíma þannig að það er í höndum bæjarins að ákveða hvernig útfærslan verður á framkvæmdunum en auðvitað verðum við með í ráðunum í þeim efnum.

Tillagan sem samþykkt var í bæjarráði á dögunum gengur út á að samhliða byggingu knattspyrnuhallarinnar verði ráðist í það að byggja íbúðir sem skapi tekjugrundvöll sem færi í að byggja knattspyrnuhöllina. Vonandi verður góður gangur í þessu ferli,“ segir formaðurinn upplitsdjarfur.

Unnið hefur verið nýtt deilisskipulag á svæðinu. Í hinu nýja deiliskipulagi er skilgreind ný lóð undir íbúðabyggð, þar sem gert er ráð fyrir 100 til 110 íbúðum. Hæð húsa verði um 2 – 5 hæðir. Bílakjallari verður undir byggingunum fyrir 90 bílastæði og 60 bílastæði ofanjarðar. Þá er gert ráð fyrir að byggt verði fjölnota knatthús nyrst á lóðinni. Stærð knatthússins verði 9.900 m² og hæð verði 25m yfir miðju vallar, en 12m í hliðum. Gert er ráð fyrir 230 nýjum bílastæðum vestan og norðan megin við knatthús. Að öðru leyti gilda eldri skilmálar deiliskipulagsins.

Eftirfarndi atriði koma fram í samkomulagi Hafnarfjarðarbæjar og Hauka sem samþykkt var í bæjarráði í síðustu viku.

  • Bæjarráð skal skipa í sérstaka framkvæmdanefnd, þrjá fulltrúa frá Hafnarfjarðarbæ og tvo fulltrúa sem tilnefndir eru frá Knattspyrnufélaginu Haukum. Skal bæjarráð gera framkvæmdanefnd sérstakt erindisbréf.
  • Í skýrslu starfshóps um uppbyggingu á Ásvöllum er sett fram tillaga að gerð knatthúss og áfangaskiptingu sem og fjármögnun verkefnisins. Samkomulag er um að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga verkefnisins samhliða því að lóðum á Ásvöllum verði úthlutað.
  • Aðilar eru sammála um að hefja þegar undirbúning að hönnun og öðrum nauðsynlegum verkþáttum er varðar byggingu knatthúss. Skal jafnframt horft til þess möguleika að byggingarframkvæmdum verði hraðað ef hagstæðir samningar nást þar um.
  • Tekjur af innheimtum lóðaverðum vegna hinnar nýju íbúðabyggðar á Ásvöllum verði nýttar til uppbyggingar knatthúss á Ásvöllum.
  • Hafnarfjarðarbær skuldbindur sig til að fjármagna verkefnið að öðru leyti. Ákvörðun um fjármagn til verkefnisins er tekin af bæjarstjórn í fjárhagsáætlun hvers árs og eða við breytingu fjárhagsáætlunar þess árs.