ÍBV styrkti stöðu sína í fjórða sæti Olís-deildar kvenna í kvöld með 25-23 sigri á Stjörnunni en með því eru Eyjakonur komnar með fjögurra stiga forskot í baráttuni við KA/Þór um síðasta sætið í úrslitakeppninni þegar þrjár umferðir eru eftir.

Eyjakonur eru með innbyrðis viðureignirnar á Akureyringa og þurfa því aðeins tvö stig úr síðustu þremur leikjunum til að tryggja sér þáttökuseðil í úrslitakeppninni.

Liðin féllu bæði úr leik í undanúrslitum bikarsins fyrir helgina en það var ekkert ryð að finna í upphafi leiks. Liðin voru beitt frá fyrstu mínútu og skiptust á mörkum en Garðbæingar voru með frumkvæðið framan af.

Eyjakonur náðu því til sín fyrir lok fyrri hálfleiks og leiddi ÍBV með tveimur mörkum í hálfleik. Munurinn fór mest upp í fjögur mörk í seinni hálfleik en Eyjakonur misstu aldrei takið á forskotinu og lönduðu sigrinum á heimavelli.

Arna Sif Pálsdóttir var atkvæðamest í liði heimakvenna með sjö mörk en hjá gestunum var það Þórey Rósa Ásgeirsdóttir sem var markahæst með átta mörk.