ÍBV lagði HK/Víking að velli með þremur mörkum gegn einu þegar liðin mættust í frestuðum leik í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld.

Það var enski miðvallarleikmaðurinn Emma Rose Kelly sem kom ÍBV yfir í upphafi síðari hálfleiks og bandaríski framherjinn Brenna Lovera bætti tveimur mörkum við fyrir Eyjakonur.

Bandaríski sóknarmaðurinn Simone Emanuella Kolander lagaði stöðuna fyrir HK/Víking undir lok leiksins en lengra komust gestirnir og tapið í dag þýðir að liðið er fallið niður um deild.

HK/Víkingur sem kom upp í efstu deild haustið 2017 er á botni deildarinnar með sjö stig en Keflavík er sæti ofar með 10 stig þegar tvær umferðir eru eftir af deildinni.

ÍBV hefur 15 stig eftir sigurinn í dag og þarf því eitt til þrjú stig til þess að halda sæti sínu í deildinni í síðustu tveimur leikjunum. ÍBV hefur tveimur mörkum betri markatölu en Keflavík eins og sakir standa.

Í síðustu tveimur umferðum deildarinnar mætir ÍBV Fylki og Selfoss á meðan Keflavík leikur við HK/Víking og Val.