ÍBV og Víkingur eru enn í leit að sínum fyrsta sigri í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu en liðin gerðu 1-1 jafntefli þegar þau mættust í fyrsta leik fimmtu umferðar deildarinnar á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í dag.

Hollenski framherjinn Rick Ten Voorde kom Víkingi yfir þegar hann skoraði úr vítaspyrnu á 71. mínútu leiksins. Vítaspyrnan var dæmd á Felix Örn Friðriksson fyrir að rífa Guðmund Andra Tryggvason niður inni í vítateig Eyjaliðsins.

Felix Erni var vísað af velli með rauðu spjaldi fyrir brotið og Víkingar léku einum fleiri síðustu 20 mínútur leiksins rúmar.

Það stefndi allt í fyrsta sigur Víkings í deildinni á yfirstandandi leiktíð en Jonathan Glenn tryggði heimamönnum stig þegar hann skallaði boltann í mark Víkings eftir fyrirgjöf frá Breka Ómarssyni.

ÍBV er áfram á botni deildarinnar en núna með tvö stig og Víkingur er svo sæti ofar með þrjú stig.