Valur náði að bjarga stigi með frábærum lokasprett í 18-18 jafntefli gegn ÍBV í 4. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld þegar Valskonur skoruðu síðustu fjögur mörk leiksins í Vestmannaeyjum.

Var um leik að ræða sem átti að fara fram í gær í fjórðu umferð Olís-deildar kvenna en var frestað vegna samgönguörðugleika. 

Stigið kemur liðunum upp fyrir HK í 2. og 3. sæti deildarinnar og eru Framkonur komnar með gott forskot á toppi deildarinnar.

Valskonur mættu klárar í slaginn og virtust ætla að gera út um leikinn snemma leiks. Náðu þær 5-1 forskoti og héldu góðu forskoti allan fyrri hálfleikinn.

Var það ekki fyrr en undir lok leiksins að ÍBV tókst að snúa leiknum sér í hag og náðu fjögurra marka forskoti 18-14.

Gestirnir neituðu að gefast upp og settu síðustu fjögur mörk leiksins og tryggðu sér um leið eitt stig.

Greta Kavaliuskaite var atkvæðamest í liði heimakvenna með sex mörk líkt og Lovísa Thompson í liði Vals.

KA/Þór sem er nýliði í deildinni gerði góða ferð á Selfoss þar sem liðið fór með 23-18 sigur af hólmi.

Martha Hermannsdóttir var einu sinni sem oftar markahæst hjá norðanliðinu með átta mörk. Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Katrín Vilhjálmsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor fyrir gestina sem hafa fjögur stig í fjórða til fimmta sæti deildarinnar. 

Sarah Boye Sörensen skoraði mest sex mörk talsins fyrir Selfoss sem er á botni deildarinnar með eitt stig. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir kom næst með fjögur mörk.