Haukar og ÍBV mætast í oddaleik upp á hvort liðið leikur til úrslita gegn Selfossi í Olís-deild karla en þetta varð ljóst eftir 30-27 sigur ÍBV í Vestmannaeyjum í dag.

Liðin mætast á ný á laugardaginn í hreinræktuðum úrslitaleik hvort liðið fari áfram og hvort liðið sé komið í sumarfrí.

ÍBV lék án Kára Kristjáns Kristjánssonar eftir að aganefnd HSÍ synjaði áfrýjun ÍBV um að stytta leikbannið. Komist ÍBV áfram tekur Kári fullan þátt í úrslitunum.

Eyjamenn byrjuðu betur og náðu forskotinu strax í upphafi sem þeir áttu aldrei eftir að sleppa.

Haukar náðu að hanga í ÍBV en Eyjaliðið var alltaf skrefinu á undan og átti sigurinn fyllilega verðskuldaðan.