Vestmannaeyjabær mun breyta Hásteinsvelli, heimavelli ÍBV, í gervigrasvöll með flóðlýsingu og hefjast framkvæmdir næsta haust í von um að völlurinn verði tilbúinn fyrir upphaf Íslandsmótsins 2023.

Þetta staðfesti Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri íþróttafélagsins ÍBV, í samtali við Fréttablaðið.

Fyrir helgi kom það fram á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar að eitt mikilvægasta verkefni sveitarfélagsins í aðstöðumálum íþróttafélagsins ÍBV á næstu árum sé að koma gervigrasi og flóðlýsingu á Hásteinsvöll.

Gert er ráð fyrir 170 milljónum króna í uppbyggingu íþróttamannvirkja árið 2023 og 180 milljónum næstu tvö ár eftir það eða rúmlega hálfum milljarði.

„Við skoðuðum hvert nýtingarhlutfall Hásteinsvallar hefur verið undanfarin ár og ræddum við ýmsa íþróttafulltrúa og framkvæmdastjóra hjá öðrum félögum til að skoða nýtingarhlutfall þeirra. Það var síðan efnt til félagsfundar þar sem niðurstöðurnar voru kynntar áður en kosið var um næstu skref félagsins. Stjórnin hafði ákveðnar hugmyndir um framtíðarsýn fyrir félagið sem var samþykkt á fundinum, þær hugmyndir horfðu til þess að byggt yrði félagsheimili við völlinn og handknattleikssalur, ásamt því að stækka knattspyrnuhúsið sem er hálfur völlur í dag. Að lokum kusu félagsmenn um forgangsröðunina og það varð ofan á byrjað yrði á því að leggja gervigras og koma á flóðlýsingu á Hásteinsvöll,“ segir Haraldur.

Að beiðni bæjarstjórnar hefur starfshópur unnið undirbúningsvinnu til að meta framtíðarþörf á uppbyggingu íþróttamannvirkja í Eyjum undanfarin ár og er horft til framkvæmda á næstu tíu árum.

Í skýrslunni lýstu bæði ÍBV og KFS því yfir að óskastaða væri að stækka knattspyrnuhöllina sem er fyrir svo að það yrði að velli í fullri stærð ásamt því að lýsa yfir áhuga að fá gervigras á velli sína.

Þá óskaði ÍBV eftir því að fá flóðlýsingu á heimavöll félagsins, Hásteinsvöll, en með lengingu Íslandsmóts karla í knattspyrnu er aukin þörf fyrir slíkan búnað sem verður fyrsta verkefnið af listanum.

„Það eru breytingar að eiga sér stað í knattspyrnuhreyfingunni á Íslandi. Það er verið að lengja mótið í von um að fá fleiri góða leiki og við ætlum okkur að vera í fremstu röð. Þá verðum við að aðlagast breytingunum,“ segir Haraldur enn fremur, aðspurður hvernig það væri að horfa á eftir grasvellinum.

Haraldur bætti við að með þessu myndi einnig sparast ferðakostnaður í yngri flokkum þar sem ÍBV gæti leikið á heimavelli sínum yfir vetrartímann.