Þrír leikir fóru fram í fjórðu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Eftir leiki kvöldsins eru ÍA og Breiðablik jöfn að stigum með 10 stig á toppi deildarinnar.

Skagamenn unnu sannfærandi 2-0 sigur þegar liðið fékk FH í heimsókn upp á Akranes. Bjarki Steinn Bjarkason skoraði bæði mörk Skagaliðsins í leiknum en Pétri Viðarssyni varnarmanni FH var vísað af velli með rauðu spjaldi á 71. mínútu leiksins.

Breiðablik gerði góða ferð norður og fór með 1-0 sigur af hólmi þegar liðið mætti KA á Greifavellinum á Akureyri. Thomas Mikkelsen skoraði sigurmark Breiðabliks úr vítaspyrnu. Þetta er annað tap KA-manna í röð.

Stjarnan vann svo Víking 4-3 í fjörugum leik liðanna á Eimskipsvellinum í Laugardalnum. Guðjón Baldvinsson skoraði tvö marka Stjörnunnar í leiknum og Hilmar Árni Halldórsson og Alex Þór Hauksson sitt markið hvor.

Ágúst Eðvald Hlynsson, Júlíus Magnússon og Sölvi Geir Ottesen skoruðu hins vegar mörk Víkins sem hefur nú beðið ósigur í tveimur leikjum í röð.

Stjarnan er í þriðja sæti deildarinnar með átta stig en FH kemur þar á eftir með stigin sín sjö. Fylkir og KR eru jöfn að stigum með fimm stig í fimmta til sjötta sæti deildarinnar. KA er í sjöunda með þrjú stig, Grindavík og Víkingur í áttunda til níunda með tvö stig.

Valur, HK og ÍBV reka svo lestina með eitt stig hvert lið. Umferðinni lýkur svo með leikjum Grindavíkur og KR, HK og ÍBV og Fylkis og Vals annað kvöld.