Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, var gestur vikunnar ásamt Herði Snævari Jónssyni, íþróttastjóra Torgs og þar var farið yfir víðan völl í íþróttaheiminum.
Meðal annars stórfrétt vikunnar en Guðmundur Guðmundsson og HSÍ komust að samkomulagi að því að binda enda á sitt samstarf og lýkur því landsliðsþjálfaraskeiði Guðmundar með íslenska karlalandsliðið í handbolta.
Umræða um það hver tekur við landsliðinu er komin á fullt og spurði Benedikt Bóas gesti sína að akkúrat þeirri spurningu.
Hver tekur við?
„Dagur Sigurðsson eða?“ svaraði Hörður þá og sagði Benedikt á móti að það væri einhvern veginn draumur allra.
„Hann er einhvern veginn maður fólksins. Það er svo fyndið, þegar að maður er að spyrja fólk að þessu á förnum vegi, það svara flestir Dagur. Hann er með svaka nærveru, góður í sjónvarpi, það vilja allir hann.“
Svo eru aðrir í púllíunni, þar á meðal Snorri Steinn Guðjónsson sem hefur náð eftirtektarverðum árangri með Valsmenn.
„Þetta snýst náttúrulega að mörgu leiti um að Dagur er samningsbundinn Japan fram á mitt næsta ár,“ bætti Hörður við. „Ætli hann þurfi ekki að taka á sig svona 70% launalækkun taki hann við landsliðsþjálfarastarfinu hér heima, það gæti haft áhrif. „En Dagur virðist vera kostur flestra.“
Guðlaugur Þór lagði þá orð í belg:
„Mér finnst frábært að við séum með valkosti í þessum efnum, að menn sem hafa staðið sig mjög vel og gert vel fyrir Ísland séu nú orðnir góðir þjálfarar.“
Fyrr í umræðunni hafði verið varpað ljósi á sögusagnir sem hafa einkennt umræðuna um starfslok Guðmundar í vikunni. Að einhverjir af lykilmönnum landsliðsins hafi látið HSÍ vita að þeir nenntu ekki lengur að vinna með Guðmundi.
„Ef það er staðan, þá gæti kannski verið skynsamlegt að fá einhvern utanaðkomandi aðila inn í þetta. Einhvern sem er bara að kynnast öllum leikmönnum upp á nýtt.“
Nánari umræðu um þjálfaramál íslenska landsliðsins í handbolta má sjá hér fyrir neðan: