Þeir gerast ekki mikið stærri gestirnir en sá sem fenginn var í Íþróttavikuna með Benna Bó í þetta skiptið. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sat þá í setti ásamt Herði Snævari Jónssyni, fréttastjóra íþrótta á Torgi.  

Eins og allir vita etur íslenska karlalandsliðið í handbolta nú kappi á HM. Kröfurnar á liðið eru miklar. 

„Við erum 300 plús þúsund og erum eiginlega að gera kröfur á verðlaun. Erum við ekki kengbiluð þegar kemur að þessum handbolta?“ spyr Benedikt. 

Hörður segir í lagi að gera kröfur á liðið í dag 

„Við förum oft fram úr okkur en þetta lið sem við erum núna, það er réttmætt að gera smá kröfur á það og þeir gera það sjálfir.“ 

Guðni tekur til máls. „Það gildir í íþróttum og lífinu almennt að ef maður þykist ekki vita að maður geti komist skrefinu lengra þá kemst maður ekki skrefinu lengra. En væntingastjórnun er auðvitað þekkt hugtak í heimi íþrótta. Það skiptir máli að ná hinu gullna jafnvægi, að hafa trú á eigin getur að andstæðingurinn vaxi manni ekki í augum. En aftur á móti þarf að vera virðingu fyrir andstæðingnum. 

Það er bláköld staðreynd að við erum með betri liðunum þarna.“ 

Umræðan í heild er hér að neðan.