Íslenska landsliðið á, þegar tveir leikir eru eftir hjá liðinu í undankeppni HM, góðan möguleika á að tryggja sér beint sæti á HM. Stelpurnar okkar eru sem stendur í 2. sæti síns riðils, tveimur stigum á eftir toppliði Hollands og með leik til góða.

Fram undan eru síðustu tveir leikir liðsins í riðlinum gegn Belarús á heimavelli þann 2. september næstkomandi og síðan útileikur gegn Hollandi í lokaumferð riðilsins.

Ísland vann nokkuð öruggan 5-0 sigur á Belarús í fyrri umferðinni og gera verður kröfur á að liðið sigli sigrinum heim á heimavelli. En sama hvernig fer gegn Belarús bíður liðsins alltaf úrslitaleikur gegn Hollendingum sem mun ráða úrslitum um það hvort það verði Íslendingar eða Hollendingar sem ná að tryggja beint sæti á HM 2023 á næsta ári.