Það var ljóst að við ramman reip yrði að draga þegar íslenska karlalandsliðið í handbolta mætti ríkjandi Evrópumeisturum Spáni í öðrum leik sínum á heimsmeistaramótinu í handbolta karla í kvöld.  

Jafnræði var með liðunum framan af leiknum, en íslensku leikmennirnir voru svo þó nokkuð einum færri þegar líða tók á leikinn og það nýttu Spánverjar sér og náðu upp þægilegu forskoti. Staðan í hálfleik var 19-14 Spáni í vil. 

Íslenska liðið mætti grimmt til leiks inn í seinni hálfleikinn og Björgvin Pál Gústavsson átti góða innkomu í markið hjá Íslandi sem leiddi til þess að munrinn fór niður í þrjú mörk í stöðunni 19-16. Þá tóku Spánverjar við sér á nýjan leik og báru að lokum 32-25 sigur úr býtum.  

Ólafur Andrés Guðmundsson var markahæstur hjá íslenska liðinu með sex mörk, en gamli samherjinn hans hjá FH Aron Pálmarsson kom næstur með fimm mörk. 

Þriðji Hafnfirðingurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson átti svo góða innkomu í sinn fyrsta leik á stórmóti, en hann fiskaði þrjú vítaköst á þeim stundarfjórðungi sem han spilaði. 

Hornamennirnir Arnór Þór Gunnarsson og Bjarki Már Elísson skoruðu þrjú mörk hvor. Sigvaldi Björn Guðjónsson og Teitur Örn Einarsson stimpluðu sig inn á stóra sviðið með sínum fyrstu mörkum á stórmóti, en þeir skoruðu báðir tvö mörk fyrir íslenska liðið. 

Stefán Rafn Sigurmannsson, Arnar Freyr Arnarsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu svo sitt markið hver. 

Björgvin Páll Gústavsson varð tíu skot í leiknum og Ágúst Elí Björgvinsson fimm skot. 

Næsti leikur Íslands er á morgun klukkan 14.30 þegar liðið leiðir saman hesta sína við Aron Kristjánsson og lærisveina hans hjá Barein.  

Eftir tvær umferðir eru Spánn, Makedónía og Króatía öll með fullt hús stiga og Ísland, Japan og Barein svo án stiga.