Ísland mætir Tyrklandi og Moldóvu í lokaumferðum í H-riðli undankeppninnar í knattspyrnu karla um miðjan nóvember. Leikið verður við Tyrkland fimmtudaginn 14. nóvember og Moldóvu sunnudaginn 17. nóvember en báðir leikirnir fara fram ytra.

Fyrir síðustu tvær umferðirnar eru Frakkland og Tyrkland jöfn að stigum með 19 stig á toppi riðilsins en íslenska liðið kemur þar á eftir með 15 stig.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson þjálfarar íslenska liðsins kynna eftir skamma stund leikmannahóp íslenska liðsins sem mætir Tyrklandi í Istanbúl og Moldóvu í Zimbru.

Aron Einar Gunnarsson, Jóhann Berg Guðmundsson og Albert Guðmundsson verða fjarri góðu gamni í þessum leikjum vegna meiðsla.

Emil Hallfreðsson, Birkir Már Sævarsson og Ingvar Jónsson detta svo út úr hópnum sem mætti Andorra í síðasta leik undankeppninnar. Rúnar Alex Rúnarsson, Hörður Björgvin Magnússon, Rúnar Már Sigurjónsson og Mikael Neville Anderson koma inn í hópinn í þeirra stað.

Erik Hamrén fær orðið og fer yfir tvo síðustu leiki þar sem hann segir spilamennskuna á móti Frakklandi hafa verið góða þrátt fyrir tapið og liðið hafi svo sýnt fagmannlega frammistöðu á móti Andorra.

Hamrén fer yfir stöðuna í riðlinum en segir svo að einbeitingin sé einungis á leiknum gegn Tyrklandi þar sem farið verði inn í leikinn með það að markmiði að hafa betur.

Freyr fær svo orðið þar sem hann fer yfir undirbúning fyrir komandi leiki. Gist verður til að byrja með í Antalya þar sem leikmenn týnast inn á mánudegi og hópurinn verður allur kominn á þriðjudegi. Farið veðrur til Istanbúl á miðvikudegi sem er daginn fyrir leik.

Freyr segir spennandi tilhugsun að spila á Turk Telekom, heimavelli Galatasaray, og hann væntir þess að þetta verði mikil upplifun. Hann bendir á að samkvæmt heimsmetabók Guinness hafi hæsta hávaðatíðnin í hljóði á knattspyrnuvelli mælst á þessum leikvangi.

Tyrkland hefur ekki beðið ósigur í síðustu sjö leikjum sínum á heimavelli. Tyrkneska liðið hefur fengið á sig þrjú mörk í undankeppninni til þessa þar af tvö úr föstum leikatriðum.

Freyr segir að tyrkneska liðið hafi breyst á síðustu árum frá liði þar sem einkenndist af einstaklingshyggju í lið sem byggir á sterkri liðshelid. Liðið er sterkt í skyndisóknum og föstum leikatriðum og íslenska liðið þurfi að ná að stýra leikmyndinni.

Íslenska liðið svo að fara að spila í fyrsta skipti í Chisinau þegar liðið mætir Moldóvu þar. Segir moldóvska liðið ekki munu hafa að neinu að tapa í þessum leik og vilji enda með góðum hætti. Stefnt sé að því hjá Íslandi að fara í þennan leik með eitthvað í húfi.

Hamrén ræðir um að Mikael Neville Anderson sem kemur inn í þennan hópinn í þessum leik sé spennandi leikmaður sem hafi spilað vel með Midtjylland sem er á toppi dönsku efstu deildarinnar þessa stundina.

Freyr segir að þjálfarar íslenska liðsins séu í stöðugu sambandi við Kolbein Sigþórsson en þær samræður hafi snúist um knattspyrnu en ekki atvik sem hann lenti í utan vallar í Stokhólmi um síðustu helgi.

Birkir Már er með beinmar og það er hluti af ástæðunni fyrir því að hann er ekki valinn að þessu sinni. Ákveðið hafi svo verið að velja ekki Emil Hallfreðsson að þessu sinni vegna þess að hann er ekki að leika reglulega með félagsliði.