Fimleikakonan Oksana Chusovitina keppti í áttunda sinn á Ólympíuleikunum í ár, 46 ára gömul. Oksana er frá Úsbekistan og hefur verið að keppa í Ólympíuleikunum frá árinu 1992 þegar leikarnir voru haldnir í Barselóna, segir í frétt hjá CBS news.
Á leikunum í Ríó de Janeró árið 2016 varð Oksana fyrst alls fimleikafólks til að keppa í sjö Ólympíuleikum. Hún er því að bæta eigið met á leikunum í Tókýó í ár. Hún byrjaði í fimleikum aðeins sjö ára gömul og hefur því stundað íþróttina í tæp fjörutíu ár.
Hún æfir í þrjá tíma á dag, nema á sunnudögum, segir á heimasíðu Ólympíuleikanna. Árið 2018 varð hún elsti íþróttamaður til að fá verðlaunapening á Asísku leikunum en hún fékk silfurpening í stökki.
Oksana keppti í stökki í Tokýó í vikunni en fékk ekki nægilega mörg stig til að komast áfram. Eftir umferðina stóð fólk upp og klappaði fyrir glæsilegri frammistöðu fimleikakonunnar. Hún hyggst leggja keppnismennsku á hilluna eftir leikana í ár.