England og Skotland gerðu markalaust jafntefli þegar liðin mættust í D-riðli Evrópumótsins í knattspyrnu karla á Wembley í kvöld.

John Stones komst næst því að skora í leiknum en skalli hans í fyrri hálfleik small í stönginni á skoska markinu.

Fyrr í dag gerðu Króatía og Tékkland 1-1 jafntefli þar sem Ivan Perisic skoraði mark Króata eftir að Patrik Schick hafði komið Tékkum yfir með þriðja marki sínu í tveimur leikjum á mótinu.

Englendingar og Tékkar, sem mætast í lokaumferð riðlakeppninnar, hafa fjögur stig eftir tvo leiki en Króatar og Skotar, sem leiða saman hesta sína í lokaumferðinni hafa eitt stig.