Hvíta húsið er ekki hrifið af á­formum fyrrum körfu­bolta­kappans Dennis Rodman sem segist ætla halda til Rúss­lands og koma því fyrir að banda­rísku körfu­bolta­konunni Britt­n­ey Griner verði sleppt úr haldi þar­lendra stjórn­valda. Þetta segir full­trúi Hvíta hússins í sam­tali við Reu­ters.

Griner var í upp­hafi mánaðarins dæmd í 9 ára fangelsi í Rúss­landi fyrir að hafa ,,vís­vitandi komið með kanna­bis­vökva í raf­sígarettu til Rúss­lands þrátt fyrir að þau væru ó­lög­leg," þetta segir í úr­skurði dóm­stóla í Rúss­landi. Griner hefur verið í haldi í Rúss­landi síðan í febrúar eftir að kanna­bis­vökvi fyrir raf­sígarettur fannst í far­angri hennar við komuna til landsins.

Rodman sagði í við­tali á NBC News á dögunum að hann ætli sér að halda til Rúss­lands og reyna fá Griner lausa. Full­trúi Hvíta hússins, sem kaus að halda nafn­leynd, sagði í sam­tali við Reu­ters að stjórn­völdum litist illa á þessa á­ætlun Rodmans.

„Það er vel á vit­orði al­mennings að full­trúar banda­rískra stjórn­valda hafa verið í við­ræðum við Rússa um lausn Griner. Allar aðrar til­raunir en til­raunir stjórn­valda gætu spillt fyrir þeim við­ræðum."

Rússar hafa áður boðið banda­rískum stjórn­völdum að skiptast á föngum ef Banda­ríkin eru til­búin að sleppa vopna­salanum Viktor Bout úr haldi sem var á sínum tíma dæmdur í 25 ára fangelsi. Banda­rísk stjórn­völd hafa sam­þykkt það en samt sem áður hafa skiptin ekki gengið í gegn enn þá.