Ríkis­stjórn Japan segir að hvít­rúss­neski sprett­hlauparinn Krystsina Tsi­ma­nou­ska­ya sé örugg. Í gær var greint frá því að flytja ætti hana nauðuga heim frá Japan eftir að hún gagn­rýndi þjálfarana sína fyrir að skrá sig til leiks í 400 metra hlaupi án þess að láta hana vita og vegna þess að hún hafi aldrei keppt í slíku hlaupi.

Sam­kvæmt frétt AP leiddi gagn­rýni hennar til á­kveðinnar patt­stöðu á flug­vellinum í Tókýó þar sem að hún kallaði sjálf á lög­regluna og neitaði að fara um borð í vél sem átti að lenda í Istanbúl. Í yfir­lýsingu sem var birt snemma í morgun kemur fram að hún sé nú stödd á lög­reglu­stöð.

„Ég út­skýrði fyrir lög­reglu­manni hvernig ég var fjar­lægð úr Ólympíu­þorpinu,“ segir hún í yfir­lýsingunni og að hún sé nú á öruggum stað og sé að reyna að finna út úr því hvar hún eigi að vera í nótt.

Í frétt AP segir að yfir­völd í Japan vinni með al­þjóð­legu Ólympíu­nefndinni um að komast að niður­stöðu í málinu. Talið er að hún muni sækja um hæli í Austur­ríki.

Tsi­ma­nou­ska­ya er skráð í 200 metra hlaup í Ólympíu­leikunum í dag. Hún keppti síðasta föstu­dag í 100 metra hlaupi.

Pólsk yfir­völd hafa boðist til þess að að­stoða Tsi­ma­nou­ska­ya en fjöl­margir gagn­rýn­endur hvít­rúss­nesku stjórnarinnar hafa flúið þangað. Utan­ríkis­ráð­herra Pól­lands, Marcin Przydacz, sagði á Twitter í gær að henni hefði verið boðin vega­bréfs­á­ritun af mann­úðar­á­stæðum og að henni væri frjálst að halda á­fram að sinna hlaupa­í­þróttinni í Pól­landi.

Hvít­rúss­nesku Ólympíu­nefndinni hefur í meira en 25 ár verið stjórnað af for­seta landsins, Alexander Lukas­hen­ko og syni hans Viktor. Þeir er báðum meinaður að­gangur að Ólympíu­leikunum í Tókýó en al­þjóð­lega ólympíu­nefndin hefur rann­sakað kvartanir frá í­þrótta­fólki vegna hefndar­að­gerða og hótana gegn þeim vegna mót­mæla í kjöl­far for­seta­kosninganna í ágúst í fyrra.

Ítrekar mikilvægi rannsóknar

Svetlana Tik­hanovska­ya, sem var mót­fram­bjóðandi Lukas­hen­ko í kosningunum í fyrra og telur sig raun­veru­legan sigur­vegara kosninganna, fagnaði á­kvörðun al­þjóð­legu Ólympíu­nefndarinnar en í­trekaði um leið mikil­vægi þess að á­sakanir gegn hvít­rúss­nesku ólympíu­nefndinni verði rann­sakaðar.