Franska félagið PSG hvílir stærstu stjörnu sínar, hinn brasilíska Neymar ásamt því að Kylian Mbappe tekur út leikbann og ættu þeir því að mæta úthvíldir í leikinn gegn Liverpool á þriðjudaginn.

Franska félagið mætir Saint-Etienne á útivelli í dag og nýtti Thomas Tuchel, þjálfari PSG, tækifærið til að hvíla Neymar eftir að hann lék í báðum æfingarleikjum brasilíska landsliðsins á dögunum.

Þá tekur Mbappe út leikbann í dag en Eric-Maxim Choupo-Moting sem samdi nýlega við félagið eftir vistaskipti frá Stoke á Englandi fyrr á árinu gæti fengið eldskírn sína í kvöld.

Franska félagið mætir Liverpool í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn en ásamt þeim eru Napoli og Red Star Belgrade í riðlinum.