Eins og fram kom síðla hausts eru eig­endur tveggja stærstu fé­laga Eng­lands, Manchester United og Liver­pool, opnir fyrir því að selja þau. Það virðist þó sem meiri á­hugi sé á að kaupa fyrr­nefnda fé­lagið.

Glazer-fjöl­skyldan hefur átt United síðan 2005 en Fenway Sports Group Liver­pool síðan 2010.

Jóhann Már Helga­son, spark­s­pekingur og við­skipta­fræðingur, mætti í sjón­varps­þátt 433.is á dögunum og ræddi meðal annars hugsan­legar sölur á stór­liðunum tveimur.

Það er út­lit fyrir það sem stendur að meiri á­hugi sé á United. „Maður veit ekki hvað gengur á á bak við tjöldin en miðað við það sem maður les er það þannig,“ segir Jóhann.

„Jim Ratclif­fe virðist ætla að reyna að kaupa United og á sama tíma er maður farinn að horfa á að Liver­pool sé jafn­vel farið að sætta sig við að taka inn hlut­hafa, selja ekki meiri­hlutann frá sér.“

Málin gætu þó farið að skýrast á næstu misserum.

„Í byrjun febrúar eiga þeir að fara að opna til­boðin. Þá sjáum við hverjir sitja eftir, þeir sem vilja kaupa Manchester United, hafa þeir mögu­lega á­huga á að kaupa Liver­pool? Það virðist vera þannig.“

En af hverju er staðan svona? „United er búið að vera í lægð í langan tíma og það eru meiri vaxtar­mögu­leikar þar. Liver­pool er búið að taka völlinn sinn í gegn, ég held að Manchester United geti gert betur á Old Traf­ford. Sem ein­hver sem kemur inn í þetta horfir þú á það svo að þú getir vaxið meira hjá Manchester United.“

Hér að neðan má sjá þátt 433.is: