Fjöldi mannréttindasamtaka hefur hvatt Joe Biden Bandaríkjaforseta til að semja við Rússa um að sleppa körfuboltakonunni Brittney Griner úr haldi. Reuters fjallar um málið.

Griner var handtekin við komuna til Rússlands þann 17. febrúar síðastliðinn og sökuð um að smygla kannabisvökva inn í landið, ætlaðan rafrettum.

Saksóknari samþykkti í síðustu viku að framlengja gæsluvarðhald yfir Griner, sem er ein fremsta körfuknattleikskona heims.

Málið verður tekið fyrir að nýju þann 2. júlí næstkomandi en hún hefur verið í haldi rússneskra yfirvalda frá 17. febrúar. Þetta var í annað sinn sem gæsluvarðhaldið er framlengt.

Bandarísk yfirvöld hafa barist fyrir því að Griner verði sleppt úr haldi Rússa, sem lögðu til á sínum tíma að Bandaríkjamenn myndu stunda við þá fangaskipti og leysa úr haldi Viktor Bout, Rússa sem var á sínum tíma dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir vopnasölu til hryðjuverkahópa.

Griner hefur undanfarin ár leikið í Rússlandi á milli tímabila í WNBA-deildinni en hún hefur misst af fyrstu leikjum tímabilsins í WNBA, sterkustu deild heims í körfubolta.

„Bandarísk yfirvöld viðurkenna að Brittney sé í raun pólitískt peð með því að segja að hún sé ólöglega í haldi,“ segir í sameiginlegu bréfi nokkurra mannréttindasamtaka í Bandaríkjunum til Joe Biden og Kamölu Harris, varaforseta.

Talsmaður þjóðaröryggisráðs, Adrienne Watson, segir að ríkisstjórnin séu að skoða allar hugsanlegar lausnir til að fá Griner lausa. „Biden forseti hefur ítrekað mikilvægi þess að frelsa alla sem eru haldnir ranglega föngum erlendis, þar á meðal Brittney Griner, segir Watson.

„Ríkisstjórnin mun halda áfram að vinna hörðum höndum að því að koma henni heim,“ bætti hún við.