Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes, sagði í viðtali við Sky Sports í síðustu viku, það ekki öruggt að sjöfaldi heimsmeistarinn Sir Lewis Hamilton, haldi áfram að keppa í Formúlu 1 eftir vonbrigði nýafstaðins tímabils.

Þegar Toto var inntur eftir því hvort Hamilton myndi snúa aftur á næsta tímabili sagði hann það ekki víst. ,,Ég vonast til þess að Lewis haldi áfram að keppa vegna þess að hann er besti ökumaður allra tíma. Sem kappakstursökumaður mun hjarta hans segja honum að hann verði að halda áfram vegna þess að hann er á toppi síns ferils þessa stundina."

Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes
GettyImages

Það verður að teljast líklegasta niðurstaðan í augnablikinu að Hamilton, sem er með samning við Mercedes út árið 2023, haldi áfram að keppa með liðinu í Formúlu 1 en fari svo að hann hætti þá eru nokkrir kostir í stöðunni fyrir Mercedes.

Öll lið hafa staðfest ökumenn sína fyrir næsta tímabil. George Russell hefur meðal annars skipt yfir til Mercedes og tekur við stöðu Valtteri Bottas sem er farinn til Alfa Romeo.

George Russell er mættur til Mercedes
GettyImages

Á vefsíðu motorsport.com eru mögulegir arftakar Hamilton hjá Mercedes metnir., fari svo að hann hætti.

Fyrstir á blað hjá vefsíðunni eru ökumenn með mikla reynslu í Formúlu 1 sem eru án samnings. Kimi Raikkonen er einn þeirra. Kimi keppti sinn síðasta kappakstur í Formúlu 1 í Abu Dhabi. Það verður að teljast nánast óhugsandi að hann snúi aftur í Formúluna en hann virtist vera himinlifandi með að vera loksins hættur kappakstursiðkun.

Hins vegar gæti Mercedes leitað til Nico Hulkenberg sem hefur mikla reynslu úr Formúlu 1 og gæti vegið upp á móti reynsluleysi George Russell.

Nico Hulkenberg
GettyImages

Mercedes gæti einnig litið til ökumanna annarra liða í Formúlu 1 en þyrfti þá að kaupa þá frá liðinu. Í vangaveltum motorsport.com er Esteban Ocon, ökumaður Alpine nefndur til sögunnar en hann átti flotta spretti á tímabilinu, vann sinn fyrsta kappakstur í Formúlu 1 og hefur reynslu af því að keyra fyrir Mercedes en hann var varaökumaður liðsins árið 2019.

Það gæti einnig reynst lán í óláni fyrir Alpine að losa Ocon en varaökumaður liðsins er Oscar Piastri sem hefur slegið í gegn í undirmótaröðum Formúlu 1. Hann vann Formúlu 3 og Formúlu 2 á sínum fyrtsta tímabili í mótaröðunum.

Esteban Ocon, ökumaður Alpine
GettyImages

Þá velta spekingar motorsport.com einnig upp þeim möguleika að Mercedes næli bara strax aftur í Valtteri Bottas þar sem að hann hefur mikla reynslu af því að keyra fyrir liðið og gæti stokkið strax í hlutina án þess að þurfa að aðlagast. Alfa Romeo myndi því geta leitað aftur til Antonio Giovinazzi sem þurfti að víkja fyrir Bottas.

Valtteri Bottas
GettyImages

Hamilton hefur ekkert tjáð sig opinberlega eftir vonbrigðin í Abu Dhabi í lokakeppni tímabilsins og þá var hann ekki viðstaddur á verðlaunahátíð FIA sem fór fram í síðustu viku. Næstu vikur munu leiða það endanlega í ljós hvað hann hyggst gera.