Ísland á enn möguleika á að komast áfram í 8 liða úrslit Evrópumótsins eftir jafnteflið gegn Ítölum í gær. Til þess þurfa hlutirnir þó að falla með liðinu. Frakkar eru á toppi riðilsins með sex stig og Ísland í öðru sæti með tvö. Belgía og Ítalía eru svo með eitt stig hvort í þriðja og fjórða sæti.

Með sigri gegn ógnarsterku liði Frakka í lokaumferð riðlakeppninnar á mánudag tryggir íslenska liðið sér sæti í 8 liða úrslitum, óháð úrslitunum í leik Belga og Ítala. Tapi íslenska liðið eða ef það gerir jafntefli, þarf það að treysta á hagstæð úrslit í þeim leik.

Tap gegn Frökkum myndi þýða að eini möguleiki Íslands til að komast áfram yrði ef Belgar og Ítalir gera jafntefli. Verði það niðurstaðan ljúka Íslendingar, Belgar og Ítalir allir keppni í riðlinum með tvö stig. Þá tæki markatalan á milli þessara þriggja þjóða gildi, þar sem allar innbyrðisviðureignir eru jafnar. Það er, markatalan í leik þessara liða gegn Frökkum myndi engu máli skipta, aðeins markatalan gegn hvoru öðru.

Verði ekki hægt að útkljá hvaða lið fylgir Frökkum í 8 liða úrslit með markatölu á milli þessara þjóða mun markatala alls riðilsins í heild gilda. Þá gæti skipt miklu máli að tapa ekki of stórt fyrir Frökkum í lokaleiknum á mánudag.

Á meðan Belgar, Íslendingar og Ítalir keppast um að komast áfram í 8 liða úrslit eru örlög Frakka ráðin. Það er ljóst að Frakkar fara í 8 liða úrslit sem efsta lið riðilsins, óháð úrslitunum gegn Íslandi eða í leik Belga og Ítala í lokaumferðinni. Fari Ísland í 8 liða úrslit er líklegt að andstæðingurinn þar yrði Holland eða Svíþjóð, ef tekið er mark á stöðunni í C-riðli sem stendur.

Stigið heldur okkur í mótinu

„Fyrst og fremst erum við svekktar. Við erum metnaðarfullar og viljum vinna alla leiki og það tókst ekki í dag,“ segir Sandra Sigurðardóttir, markvörður íslenska liðsins, svekkt að leikslokum eftir 1-1 jafntefli gegn Ítölum.

Hún segir tilfinningarnar blendnar, aðspurð hvort þetta sé stig sem haldi þeim á lífi eða tvö töpuð stig.

„Það er náttúrulega bæði. Við fengum færi til að stela þessu, en þetta heldur okkur inni í mótinu áfram og þetta er að einhverju leyti enn í okkar höndum.“

Sandra tekur undir að íslenska liðið sé að takast vel á við sóknarlotur Ítala. „Við vorum búnar að skoða þær vel og vissum að þær eru með gott lið. Við vorum búnar að skoða vel hvernig þær vilja sækja. Þær lágu vissulega á okkur um tíma en við erum góðar að standa það af okkur.“