Í nýjasta þætti Tappvarpsins, hlaðvarpsþáttar í umsjón Péturs Marínó Jónssonar, ritstjóra MMAFrétta.is, er farið yfir nýafstaðinn bardaga Gunnar Nelson sem vann yfirburðar endurkomusigur á Takashi Sato á bardagakvöldi UFC um síðustu helgi. Einnig var spáð í framtíð hans í UFC en Gunnar slapp mjög vel frá bardaganum og hefur nú þegar byrjað að æfa aftur eftir bardagann.

,,Fyrir hvern einasta bardaga hjá Gunnari er alltaf talað um að hann hafi aldrei verið betri. En núna eftir þennan bardaga held ég að við getum án gríns sagt að hann hafi aldrei verið betri í aðdraganda bardaga eins og núna. Hann var 100% heill. Mér fannst hann æfa mjög vel og mér fannst ég sjá neista í honum á æfingum og í aðdraganda bardagans. Ég veit ekki hvort að það hafi verið fjarveran frá búrinu eða hungrið hjá honum að ná í sigur eftir tvö töp í röð sem olli þessu en mér fannst ég sjá einhvern aðeins meiri neista hjá honum núna heldur en síðustu ár," sagði Pétur Marínó Jónsson, ritstjóri MMAfrétta.is í nýjasta þætti Tappvarpsins.

Brynjólfur Ingvarsson, gestur þáttarins tók undir orð Péturs. ,,Líkamlega séð hefur hann sjaldan litið betur út. Hann var bara ótrúlega köttaður, meira en maður hefur séð áður og þetta var rosalega mikilvægur endurkomu sigur fyrir hann sem sýnir að hann er ennþá sami Gunni sem var í split decision bardaga við mann sem er að fara berjast um titilinn."

Gunnar er að æfa núna úti í London og er ekkert á leiðinni í eitthvað frí enn sem komið er allavegana vill Pétur meina. ,,Menn vilja bara sjá hann strax í búrinu. Það er mars núna, hann kannski tekur sér síðan frí út apríl. Kannski verður þetta árið sem hann tekur þrjá bardaga í fyrsta sinn síðan 2014, það er alveg vel raunhæft núna."

Í þættinum voru nefndir nokkrir mögulegir andstæðingar Gunnars í næsta bardaga, nokkra af þeim má sjá hér fyrir neðan og athugasemd frá Pétri við hvern og einn en nánari umræðu má heyra með því að hlusta á þáttinn:

,,Sá sem mér langar að sjá númer eitt er Kevin Holland. Hann er gott nafn sem er með hype á sér núna, það er áhugi á honum. Hann er nýkominn niður í veltivigt, þarf að byggja upp nafnið sitt þar og Gunnar væri gott nafn fyrir hann líka. Holland er stór en hann hefur líka oft verið tekinn niður."

Kevin Holland ætlar að reyna fyrir sér í veltivigt
GettyImages

,,Annar gæi sem ég er alltaf til í er Robbie Lawler. Ég held hins vegar að Lawler nenni þessu ekki. Ég held að hann vilji bara berjast við einhverja strikera."

Robbie Lawler er þaulreyndur UFC bardagakappi
GettyImages

,,Svo er þarna einn gæi sem mig hefur oft langað til að sjá Gunnar fara á móti, Alex Morono. 31 árs Bandaríkjamaður sem hefur verið í UFC síðan árið 2016 en ekki farið mikið fyrir honum. Hann er núna búinn að vinna þrjá bardaga í röð."

Alex Morono hefur náð að tengja saman sigra
GettyImages