Sebastian Vettel, fjórfaldur heimsmeistari og einn sigursælasti ökumaður Formúlu 1 frá upphafi hefur ákveðið að láta gott heita og mun eftir yfirstandandi tímabil kveðja mótaröðina. Ökumaður sem hefur ritað nafn sitt í sögubækurnar, ökumaður sem mótaröðin mun sakna.

Með brotthvarfi Vettel losnar ökumannssæti hjá Aston Martin, sögusagnir sem og pælingar um það hver taki við hans stöðu hjá liðinu eru þegar farnar af stað og ljóst að ökumannskapall gæti verið við það að fara á fulla ferð.

Nærtækasta nafnið til að grípa í væri Þjóðverjinn Nico Hulkenberg, ökumaður sam ók hjá liðinu á sínum tíma undir nafninu Force India þá hefur hann undanfarin tímabil þurft að hlaupa í skarðið, þar með talið í upphafi yfirstandandi tímabils þegar að Vettel var frá eftir að hafa greinst með Covid-19.

Hulkenberg er margreyndur ökumaður sem hefur fengið kynni af þeirri nýju kynslóð bíla sem mynda rásröðina í Formúlu 1 næstu árin.

Nico Hulkenberg
Fréttablaðið/GettyImages

Annað nafn sem hefur borið á góma er Daniel Ricciardo, núverandi ökumaður McLaren. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ricciardo hjá McLaren eftir dvöl hans hjá liðinu til þessa, dvöl sem hefur ekki staðið undir væntingum.

Ricciardo hefur sjálfur þvertekið fyrir orðróma þess efnis að hann sé á förum úr Formúlu 1. Hann segist ætla að standa við samninginn sem hann gerði við liðið og gildir út næsta tímabil en opið tækifæri hjá Aston Martin gæti hagnast öllum hlutaðeigandi.

Reynsluakstur IndyCar ökumannsins Colton Herta fyrir nokkrum vikum í Portúgal slökkti ekki í orðrómum um breytingar hjá McLaren. Hins vegar gæti Aston Martin hikað við að ráða ökumann eins og Ricciardo sem hefur ekki tekist að komast í takt við þær breytingar sem hafa nú átt sér stað í Formúlu 1.

Daniel Ricciardo, ökumaður McLaren
GettyImages

Tvöfaldi heimsmeistarinn Fernando Alonso, núverandi ökumaður franska liðsins Alpine hefur einnig verið nefndur til sögunnar sem mögulegur næsti ökumaður Aston Martin. Alonso var á radarnum hjá stjórnendum Aston Martin áður en Vettel var ráðinn. Virkilega hæfileikaríkur ökumaður sem gæti gefið Aston Martin mikið af sér þrátt fyrir að vera í eldri kantinum.

Sú skipti gætu hentað Alpine sem bíður með ungan og mjög efnilegan ökumann á hliðarlínunni, Oscr Piastri. Það er bara tímaspursmál þar til Piastri tekur skrefið upp í Formúlu 1, það er líklegt að það gerist á næsta tímabili annað hvort hjá Alpine eða öðru liði.

Fernando Alonso er tvöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1
GettyImages

Dagar Alexander Albon í Formúlu 1 virtust svo gott sem taldir er honum var skipt út sem ökumaður Red Bull Racing eftir að hafa ekki staðist væntingar. Albon fékk hins vegar ökumannssæti hjá Williams fyrir yfirstandandi tímabil og hefur gert virkilega vel við erfiðar aðstæður svo tekið er eftir.

Albon er að renna út á samning og gæti litið á það sem skref upp á við að ganga til liðs við Aston Martin sem vill taka skref upp á við. Allir innviðir eru til staðar hjá liðinu til að sækja fram en finna þarf réttu blönduna.

Alexander Albon
Fréttablaðið/GettyImages

Listinn er ekki tæmandi en ljóst er að spennandi mánuðir eru framundan í Formúlu 1 hvað ökumannsskipti varðar.