Þegar glugginn lokar hefur verið spilað í deildinni í nokkrar vikur, en keppni hefst þar 12. septem­ber næst­komandi.

Fé­lögin eru nú þegar farin að gera sig gildandi á fé­laga­skipta­markaðnum, en búist er við því að glugginn verði hóf­stilltur vegna fjár­hags­legra á­hrifa sem kóróna­veirufar­aldurinn hefur haft á fé­lögin. Frétta­blaðið spáir og spekúlerar hvað sex efstu fé­lögin í deildinni sem lauk um síðustu helgi, muni gera á markaðnum.

Liverpool

Ríkjandi meistarar hafa misst tvo leikmenn í upphafi gluggans, en Dejan Lovren er farinn til Zenit frá Pétursborg og Adam Lallana skellti sér til Brighton. Bent White, sem var á láni hjá Leeds United frá Brighton síðasta vetur, er talinn líklegur til þess að leysa Lovren af hólmi. Spænski miðvallarleikmaðurinn Thiago Alcantara sem leikur með Bayern München er sterklega orðaður við Bítlaborgarliðið. Philippe Coutinho ku vilja snúa aftur á Anfield, en spurningin er hvort Jürgen Klopp vilji taka við honum aftur. Þá gæti Todd Cantwell verið fenginn til þess að fylla skarð Adam Lallana í leikmannahópnum.

Manchester City

Glugginn hjá Manchester City breyttist þegar al­þjóða­í­þrótta­dóm­stóllinn sá til þess að þeir fengju að leika í Meistara­deild Evrópu á næstu leik­tíð. Pep Guar­diola er sagður vilja styrkja varnar­línu sína og eru hans fyrr­verandi læri­sveinar David Alaba, Nat­han Aké og Kalidou Kouli­baly orðaðir við liðið. Guar­diola ætlar svo að fá Fer­ren Tor­res, leik­mann Valencia, en hann getur leikið á vængnum, en þar missti Manchester City Leroy Sané, og inni á mið­svæðinu, í stað David Silva, sem er að öllum líkindum á leið til Valencia.

Aké er orðaður við Chelsea og City.
Fréttablaðið/Getty

Manchester United

Ole Gunnar Sol­skjær er kominn með Manchester United í Meistara­deildina á nýjan leik og mun lík­lega styrkja leik­manna­hópinn af kost­gæfni. James Maddi­son og Jack Greal­ish hafa þrá­fald­lega verið orðaðir við fé­lagið síðustu vikurnar. Svo er það talið nánast bókað að Jadon Sancho, leik­maður Borussia Dort­mund, muni á­kveða að semja við Rauðu djöflana. Franski varnar­maðurinn Dayot Upa­me­ca­no, sem leikur með RB Leipzig, er svo orðaður við liðið. Ekki liggur fyrir hvort dvöl nígeríska fram­herjans Odion Ig­halo verði fram­lengd á Old Traf­ford, en ef svo verður ekki mun liðið leita sér að nýrri vara­skeifu í fram­herja­stöðuna. Jos­hua King gæti komið til greina hvað það varðar.

Sancho er á leið til Englands og Man. Utd. er líklegasti áfangastaðurinn.
Fréttablaðið/Getty

Chelsea

Roman Abra­hamo­vic hefur nú þegar opnað veskið, en Ha­kim Zi­yech og Timo Werner koma til Chelsea í sumar. Þar með er fram­lína Chelsea orðin býsna sterk, en svo eru Chelsea og Bayer Le­verku­sen í við­ræðum um kaup Lundúna­liðsins á fram­herjanum Kai Ha­vertz. Ben Chillwell, bak­vörður Leicester City, gæti fært sig yfir til Chelsea og svo er Nat­han Aké mögu­lega á leið aftur til liðsins sem hann lék með um skeið.

Tottenham Hotspur

José Mourin­ho fær nú sumarið til þess að koma sínu hand­bragði á liðið. Þýski varnar­maðurinn Matthias Gin­ter, sem hefur verið kletturinn í vörn Borussia Mönchengladbach, er nefndur til sögunnar til þess að koma í stað Jan Ver­tong­hen. Max Aarons gæti mætt til þess að hressa upp á bak­varða­sveitina. Donny van de Beek, mið­vallar­leik­maður Ajax, er nefndur í slúður­pökkum tengdum Totten­ham Hotspur. Að lokum er talið að Harry Kane fái fé­lags­skap í fram­herja­flórunni og þar er Kós­ó­vinn Vedat Muriqi, sem hefur raðað inn mörkum fyrir Fener­bache í Tyrk­landi, lík­legur kandídat.

Leicester City

Brendan Rod­gers gæti þurft að bregðast við því að missa sína lykil­leik­menn og munu kaup hans vera í takti við hvaða leik­menn yfir­gefa her­búðir fé­lagsins. Leicester City er eitt þeirra fjöl­mörgu liða sem Coutin­ho er orðaður við, en þau við­skipti munu lík­lega ekki fara fram ef Maddi­son á­kveður að halda kyrru fyrir hjá fé­laginu. Jamal Lewis mun mögu­lega bætast við í bak­varða­sveit liðsins, Willi­am Car­val­ho gæti komið til þess að bólstra mið­svæðið og Emili­ano Buendia, sem lék vel með Norwich City, gæti hresst upp á sóknar­leikinn.

Maddison gæti farið í annað lið.
Fréttablaðið/Getty