Þýski knattspyrnustjórinn Thomas Tuchel hefur verið rekinn frá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá félaginu nú í morgun. Todd Boehly, einn af eigendum félagsins heldur því í þjálfaraleit í fyrsta skipti á sínum tíma hjá félaginu og strax eru farnar af stað vangaveltur um það hverjir gætu tekið við stjórnartaumunum á Stamford Bridge.

Nafnið sem er á allra vörum þessa stundina er argentínski knattspyrnustjórinn Mauricio Pochettino sem þekkir lífið í Lundúnum vel eftir tíma sinn hjá Tottenham. Síðasta starf hans var hjá franska stórliðinu Paris Saint-Germain en það samstarf endaði í sumar. Pochettino hefur í gegnum tíðina margoft verið orðaður við Manchester United og þykir heitur fyrir því að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina en auk Tottenham hefur hann einnig þjálfað Southampton í ensku úrvalsdeildinni.

Mauricio Pochettino
Fréttablaðið/GettyImages

Graham Potter, knattspyrnustjóri Brighton er einnig nefndur til sögunnar í þessum efnum. Potter hefur gert frábæra hluti hjá félaginu frá því að hann skrifaði fyrst undir samning árið 2019. Þá hefur árangur hans með Swansea City og sænska liðinu Östersund einnig vakið verðskuldaða athygli.

Graham Potter
Fréttablaðið/GettyImages

Knattspyrnugoðsögnin Zinedine Zidane er einnig orðaður við Chelsea. Þessi fyrrum knattspyrnustjóri Real Madrid hefur verið án starfs síðan hann yfirgaf Real Madrid í júní í fyrra. Hann hefur margoft verið orðaður við félög á borð við Manchester United, Paris Saint-Germain og þá hefur hans nafn alltaf skotið upp kollinum í tengslum við landsliðsþjálfarastöðuna hjá franska landsliðinu undanfarna mánuði.

Zinedine Zidane
Fréttablaðið/GettyImages

Eitt af óvæntari nöfnum í þessari umræðu er þýski knattspyrnustjórinn Roger Schmidt, núverandi knattspyrnustjóri Benfica. Schmidt er nýtekinn við Benfica og því myndi Chelsea væntanlega þurfa að reiða fram stóra fjárhæð til að fá hann til sín en Schmidt hefur áður verið knattspyrnustjóri og þjálfari liða á borð við PSV Eindhoven, Bayern Leverkusen og RB Salzburg

Roger Schmidt
Fréttablaðið/GettyImages