Kvennalandsliðið fær sex hundruð þúsund evrur fyrir að taka þátt í Evrópumótinu í Englandi næsta sumar sem er tvöfalt meira en á HM í Hollandi.

Í fyrsta sinn fá lið greiddar bónusgreiðslur fyrir hvert stig sem vinnst í riðlinum.

Fyrir hvern sigur í riðlakeppninni fá liðin hundrað þúsund evrur, um fimmtán milljónir íslenskra króna.

Jafntefli færir íslenska landsliðinu fimmtíu þúsund evru greiðslu, um 7,5 milljónir króna miðað við núverandi gengi.

Takist Íslandi að komast upp úr riðlinum í átta liða úrslitin fá þær rúmlega tvö hundruð þúsund evrur.

Komist þær einu skrefi lengra í undanúrslitin bætast 320 þúsund evrur við bónusgreiðslurnar sem KSÍ og kvennalandsliðið fær.

Sigurvegari mótsins fær 660 þúsund evrur til viðbótar en silfurliðið fær 420 þúsund evrur og getur sigurvegari mótsins unnið sér inn allt að 2,08 milljónir evra með því að vinna alla leikina.

Evrópska knattspyrnusambandið tilkynnti í vikunni fjárhagslegt skipulag mótsins, meðal annars hvernig félög fá bætur greiddar fyrir hvern leikmann sem fer á EM.