Einar Óli Þorvarðarson, sjúkraþjálfari hjá Val, segir að hjartaáfallið sem Christian Eriksen fékk um síðustu helgi ætti að vekja félögin á Íslandi til umhugsunar um verkferla og aðbúnað á leikjum þeirra.

Þeir sem urðu vitni að leik Danmerkur og Finnlands á Evrópumótinu í fótbolta karla á laugardaginn var voru slegnir óhug þegar Christian Eriksen, leikmaður danska liðsins, fór í hjartastopp.

Til allrar hamingju voru viðbragðsaðilar snöggir á svæðið og náðu að bjarga lífi Eriksen. Einar Óli Þorvarðarson, sjúkraþjálfari Vals, segir atvikið þurfa að vekja íslensk félög til umhugsunar um að skerpa á verkferlum sínum og fara yfir hvernig bregðast skuli við í atvikum eins og þessum.

„Verkferlar eru í grunninn bara eins og við lærum úr endurlífgunarnámskeiðum. Við metum hættuna, athugum svörun einstaklingsins, öndunarveg, öndun, púls sem og meðvitund.

Eftir að kanna þetta allt tökum við svo ákvörðun um hver séu næstu skref, endurlífgun eða hver næstu skref verða,“ segir Einar Óli um fyrstu viðbrögð.

„Við sjúkraþjálfarar eigum flest að kunna þetta að mínu mati. En aðrir verkferlar eru því miður ekki mjög skýrir finnst mér á venjulegum deildarleikjum. Það eru eingöngu sjúkraþjálfarar á leikjum, nær alltaf, ekki læknar, bráðaliðar og sjaldnast er sjúkrabíll á svæðinu.

Það eiga reyndar að vera stuðtæki á öllum völlum, eða í vallarhúsum vallanna. Að mínu mati má gera betur og það getur tapast mikilvægur tími í að sækja tækið ef svona atvik kemur upp.

Hjarta má ekki vera stopp nema í örfáar mínútur ef við viljum koma í veg fyrir heilaskaða. Því tel ég að við sem erum á vellinum ættum að vera með stuðtæki í sérstakri neyðartösku á hliðarlínunni til að spara okkur tíma, sem gæti skipt sköpum og bjargað miklu,“ segir hann.

Þarf að viðhalda þekkingunni

„Þannig verkferla ættum við að setja í gang og staðla betur að mínu mati. Svo má bæta við að við sjúkraþjálfarar fáum ekki endilega þá menntum sem við þurfum í háskólanáminu okkar til að takast á við slys sem gætu gerst á vellinum.

Við nemum auðvitað fyrstu hjálp og endurlífgun, en ég myndi vilja gera betur.

Að mínu mati ætti að þurfa leyfi til að starfa sem hluti af viðbragðsteymi á leikjum með KSÍ.

Ef við sjúkraþjálfarar viljum standa okkur betur og vera betur í stakk búin til að takast á við svona slys sem og önnur á leikvellinum þá þurfum við að sækja fleiri námskeið á þessu sviði, oftar og með styttra millibili til að halda þekkingunni ferskri,“ segir Einar Óli.

„KSÍ var með eitt slíkt hér fyrir nokkrum árum en því miður hefur ekki orðið eftirfylgni á því sem er miður. Það var síðan annað námskeið sem kollegi minn flutti sérstaklega inn til landsins sem fjallaði um bráðahjálp á leikvelli og meðal annars endurlífgun með stuðtækjum. Það var alveg frábært að fá það. En það þarf að vera meira af þessu að mínu mati,“ segir sjúkraþjálfarinn um atriði sem mætti bæta.

Félögin þurfa stöðugt að minna á

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að sambandið geti veitt félögunum ráðgjöf hvað skyndihjálp varðar og aðstoð við utanumhald reglulegra hjartaskoðana leikmanna og námskeiðahald.

Það sé hins vegar ómögulegt fyrir KSÍ að sjá um að aðbúnaður sé í lagi á öllum deildarleikjum eða hafa eftirlit með að félögin sinni sínu hlutverki eins og best verði á kosið.

„Það kemur fram í leyfiskerfi KSÍ að félögin sem falla þar undir þurfi að hafa í sinni þjónustu lækna og sjúkraþjálfara. Þá þarf árlega að senda leikmenn í hjartaskoðun. Þar að auki er ákvæði í staðalsamningi KSÍ að til staðar hjá félögum þurfi að vera læknir og sjúkraþjálfari.

Það er ekki möguleiki fyrir KSÍ að hafa eftirlit með því að þessu sé sinnt. Þetta atvik er áminning um það hversu mikilvægt sé að fólk fari á námskeið í skyndihjálp.

Þá er það félaganna að búa til verkferla með þeim einstaklingum sem þeir skipa í viðbragðsteymi sitt. Mikilvægt er svo að starfsmenn félaganna séu fullmeðvitaðir um það hvar hjartastuðtæki er staðsett þannig að hægt sé að komast í það eins skjótt og auðið er,“ segir Klara.