Sif hefur undanfarinn áratug leikið með sænska liðinu Kristianstad undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur en hún ákvað að róa á önnur mið eftir síðasta tímabil og snúa aftur heim til Íslands eftir að hafa hjálpað Kristianstad að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Sif segist vera mjög spennt fyrir því að spila fyrir Selfoss á næsta ári. ,,Ég fylgist alltaf með deildinni heima þó að ég hafi verið erlendis og það hefur verið gaman að sjá stígandann hjá Selfossi síðastliðin ár. Það eru margar ungar og efnilegar stelpur sem hafa fengið stór hlutverk í liðinu og þarna er flottur hópur sem verður gaman að fá að kynnast,“ segir Sif í tilkynningu Selfoss.

Ljóst er að um mikinn hvalreka er að ræða fyrir Selfoss en Sif á að baki 84 A-landsleiki og 97 leiki í efstu deild hér á landi.

„Eftir tólf ár erlendis verður gaman að koma heim og Selfoss er spennandi staður. Það hefur verið mikil uppbygging í sveitarfélaginu og það virkar á mig eins og það sé mikil samheldni í bænum. Þarna er aðstaðan og umgjörðin fyrir íþróttafólk til fyrirmyndar og speglar uppganginn í íþróttalífi bæjarins. Svo hlakka ég til að sjá fallega miðbæinn sem nánast allir sem ég tala við hafa gengið um,“ segir Sif Atladóttir, nýr leikmaður Selfoss.