Handknattleiksdeild Hauka hefur gert samning við Guðmund Hólmar Helgason um að leika með félaginu næstu tvö árin. Guðmundur kemur til liðs við Hauka eftir yfirstandandi leiktíð frá Selfossi þar sem hann hefur leikið frá árinu 2020.
Guðmund Hólmar, sem verður 31 árs á árinu, þarf vart að kynna fyrir handboltaáhugafólki en hann hóf ungur að árum að leika með liði Akureyrar í efstu deild en hann vann deildarmeistaratitilinn með þeim árið 2011. Guðmundur lék síðan með Val frá 2013 til 2016 og varð hann deildarmeistari með liðinu 2015 og bikarmeistari 2016. Guðmundur lék svo í atvinnumennsku frá 2016 til 2020 en fyrri 2 árin með franska liðinu Cesson Rennes og svo seinni 2 árin með austuríska liðinu West Wien.
Guðmundur á að baki eitt stórmót með íslenska landsliðinu en það var EM árið 2016 og eru landsleikirnir samtals 25 talsins. Guðmundur hefur verið einn af betri leikmönnum Olís deildarinnar síðustu tímabil jafnt í vörn sem sókn. En Guðmundur sem spilar ýmist sem vinstri skytta eða leikstjórnandi hefur á yfirstandandi tímabili skorað 71 mark í 16 leikjum í deildinni auk þess er hann með 39 stoðsendingar.
„Það er því mikið ánægjuefni fyrir Hauka að fá eins öflugan leikmann og Guðmund til liðs við sig. Hann á án efa eftir að styrkja öflugt lið Hauka jafnt innan vallar sem utan,“ segir í tilkynningu frá Haukum.